Stangveiðifélagið Græna bindið
Stofnað 01.11.1992

 

Stærstu fiskar veiddir

 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Það vekur jafnan athygli þegar stórir fiskar veiðast, en þegar að er gáð er nokkuð langt á milli metfiskanna. Jafnan er sá háttur hafður á um skráningu stórfiska að sjónarvottar verða að staðfesta rétta þyngd. Hér á eftir fer skrá um stærstu fiska sem vitað er að veiðst hafi hér á landi, hvar þeir veiddust og hvar heimildir um viðkomandi fiska er að finna. Skráin er upphaflega fengin úr bókinni Fiskar í ám og vötnum, eftir Guðna Guðbergsson og Þórólf Antonsson, en hefur verið uppfærð að hluta skv. nýjustu upplýsingum.

 

Nýjir kandídatar!  Ef einhver lesandi hefur upplýsingar um fisk sem hann telur að eigi tilkall til skráningar á listann, er mikilvægt að senda þær til Veiðimálastofnunar. Ef til er ljósmynd af fiskinum skal senda hana einnig. Allar tilnefningar verða metnar og skráðar.                                               Upplýsingum safnar Benóný Jónssoná umhverfissviði Veiðimálastofnunar.

 

Stærstu laxarnir

 

 

Þyngd

Lengd

 

Hvenær

 

 

kg

cm

Veiðistaður

veitt

aðferð

Heimild

 

30 - 35

 

Hvítá við Flóðatanga

19.öld

net

Veiðim. 50 1959

24,5

132

Í sjó við Grímsey

1957

þorskanet

Veiðim. 50 1959

23,5

129

Í sjó við Eldey

1981

botnvarpa

Veiðim. nr. 107 1982

22,5

 

Laxá í Þing.

1895

ádráttur

Náttúrufr. 27 1958

21,5

130

Bakkaá í Bakkafirði

1992

stöng

Mbl. 26. júní 1992

21

116

Í sjó, Eldeyjarboði

1975

þorskanet

Mbl. 17. des 1975

19,5

 

Hvítá í Árnessýslu

um 1910

net

Náttúrufr. 27 1958

19,3

115

Hvítá við Iðu

1946

stöng

Náttúrufr. 27 1958

18,8

122

Hvítá við Brúará

1952

 

Náttúrufr. 27 1958

18,5

117

Í sjó við Djúpavog

1990

net

Mbl 12. apríl 1990

18,5

 

Í sjó við Hrollaugseyjar

1979

net

Veiðim. nr. 101 1979; Mbl 6. apríl 1979

18,3

 

Laxá í Þing.

1912

stöng

Náttúrufr. 27 1958

18,3

 

Laxá í Þing.

1942

stöng

Náttúrufr. 27 1958

18,0

 

Hvítá í Borg. Ferjuk.

um 1920

net

Náttúrufr. 27 1958

18,0

 

Hvítá í Borg. Svarth.

1930

stöng

Náttúrufr. 27 1958

16,5

 

Laxá í Aðaldal

1955

stöng

Veiðim. nr. 33 1955

 

 

 Stærstu vatnaurriðarnir

 

 

Þyngd

Lengd

 

Hvenær

 

 

kg

cm

Veiðistaður

veitt

aðferð

Heimild

 

18,0

 

Þingvallavatn

1957

stöng

VMST Þ.G.

14,5

 

Þingvallavatn

um 1950

stöng

VMST Þ.G.

14,3

101

Þingvallavatn

2012

stöng

Vefur V&V

14,0

 

Þingvallavatn

2004

stöng

VMST M.J.

14,0

 

Þingvallavatn

um 1960

 

VMST Þ.G.

13,0

93

Þingvallavatn

2007

stöng

Mbl 27. maí 2007

13,0

 

Þingvallavatn

um 1920

 

VMST Þ.G.

13,0

 

Þingvallavatn

1939

 

Veiðim. nr. 123 1987

13,0

 

Úlfljótsvatn

1957

net

VMST Þ.G.

12,0

 

Vesturhópsvatn

1993

 

RÚV 13. apríl 1993

11,5

90

Þingvallavatn

1957

stöng

VMST Þ.G.

11,5

97

Þingvallavatn

2011

stöng

Veiðikortið-heimasíða

11,4

94

Þingvallavatn

2011

stöng

Vefur mbl

11,0

94

Þingvallavatn

2009

 stöng

Veiðikortið

11,0

 

Þingvallavatn

um 1950

 

VMST Þ.G.

11,0

 

Langavatn

1901

 

Veiðim. nr. 19 1952

11,0

 

Öxará

2005

 

VMST M.J.

11,0

 

Efra-Sog

~1980

stöng

heimasíða veiðimanns

10,5

 

Þingvallavatn

um 1900

 

VMST Þ.G.

10,0

 

Mývatn

1930

fyrirdr.

VMST Þ.G.

9,8

88

Þingvallavatn

1948

stöng

VMST Þ.G.

9,0

72

Breiðavatn - Veiðiv.

1955

 

VMST Þ.G.

8,5

 

Skorradalsvatn

1995

stöng

DV 5. sept 1995

8,2

83

Grænavatn - Veiðivötn

2012

stöng

dfs.is - netmiðill

8,0

 

Skorradalsvatn

1992

stöng

Mbl 23. júlí 1992

7,0

 

Heiðarvatn í Mýrd.

1995

stöng

DV 21. Ágúst 1995

6,0

77

Mývatn

1951

 

VMST Þ.G.

6,0

 

Elliðavatn

1993

stöng

Mbl 18. maí 1993

 

 

 Stærstu sjóbirtingarnir

 

 

Þyngd

Lengd

 

Hvenær

 

 

kg

cm

Veiðistaður

veitt

aðferð

Heimild

 

14,0

 

Kúðafljót

um 1980

ádráttur

VMST M.J.

12,0

 

Hvítá í Borg.

 

 

Veiðim. nr. 18 1951

12,0

 

Tungulækur

 

klakv.net

VMST M.J.

12,0

 

Kúðafljót

 

ádráttur

VMST M.J.

12,0

 

Vesturhópsvatn

1988

stöng

VMST M.J.

11,5

 

Kúðafljót

2006

net

VMST BJ.

11,5

86

Litlaá

2004

stöng

VMST M.J.

11,5

 

Hólsá

1963

stöng

Mbl 20. ágúst 1963

11,5

 

Markarfljót

1992-3

ádráttur

VMST M.J.

11,3

94

Í sjó við Holtsós

1997

snurvoð

VMST M.J.

11,0

97

Kúðafljót

1989

net

Tíminn 2.sept 1989

11,0

 

Skaftá

1976-7

net

VMST M.J.

11,0

100

Tungulækur

2002

stöng

VMST M.J.

10,5

 

Skaftá, Hólmasvæði

2002

stöng

VMST M.J.

10,5

 

Tungulækur, Breiðan

1997

stöng

VMST M.J.

10,5

 

Tungulækur

 

klakv.net

VMST M.J.

10,5

 

Kúðafljót

 

ádráttur

VMST M.J.

10,5

 

Kúðafljót

um 1985

net

Tíminn 2.sept 1989

10,0

90

Kúðafljót

1996

ádráttur

VMST M.J.

9,8

90

Litlaá

1992

stöng

DV 8. sept 1992

 

 

 

Stærstu bleikjurnar

 

 

Þyngd

Lengd

 

Hvenær

 

 

kg

cm

Veiðistaður

veitt

aðferð

Heimild

 

11,0

87,5

Skorradalsvatn

1985

 

Veiðim. nr. 119 1985

8,0

 

Þingvallavatn

1949

 

VMST Þ.G.

7,3

83

Skorradalsvatn

1977

net

Tíminn 18. okt 1977

7,3

 

Mývatn

 

 

VMST Þ.G.

7,0

 

Þingvallavatn

1951

 

VMST Þ.G.

6,5

 

Mývatn

1987

net

Mbl 30. júlí 1985

 

 

 

Stærstu sjóbleikjurnar

 

 

Þyngd

Lengd

 

Hvenær

 

 

kg

cm

Veiðistaður

veitt

aðferð

Heimild

 

4,5

 

Eyjafjarðará

1994

stöng

VMST G.G.

4,5

 

Í sjó við Dalvík

1964

handfæri

VMST Þ.A.

4,3

 

Hrútafjarðará

 

stöng

VMST Þ.G.

4,0

 

Fnjóská

1994

stöng

VMST G.G.

4,0

 

Litlaá

1994

stöng

VMST G.G.

4,0

 

Vatnsdalsá

1993

stöng

VMST G.G.

3,5

 

Hafralónsá

1993

stöng

VMST G.G.

 

 

Veiddu á undan þér.

 

Byrjendur í veiði gera stundum þau mistök að byrja að vaða út í á eða stöðuvatn í stað þess að veiða fyrst næst landi og feta sig síðan áfram utar. Þannig geta menn hæglega fælt fiskinn sem er næst landi og skemmt fyrir sér veiðina.

 

Silungur kemur upp að landi í leit að æti. Hann er oft nær landi en margan grunar. Þótt laxinn sé ekki í ánni í leit að æti getur hann legið mjög nærri landi að morgni dags áður en vaðfuglarnir raska ró hans. Ég man eftir að faðir minn stóð eitt sinn á árbakkanum í Bíldsfelli og var að ná línu út til þess að geta farið að kasta þegar vænn lax tók fluguna rétt við tærnar á honum áður en hann gat byrjað að kasta.

Fiskurinn er nær en þú heldur. Ekki hrekja hann á brott. Veiddu á undan þér. 

Árni Árnason                                                                                      ÁRVÍK © 2008

 

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Fimm helstu mistökin við veiðarnar.

 

Algengustu mistökin.

 

1)   Að veiða þar sem allir hinir veiða. 

     

Ég var við Elliðavatn í sumar, á stað sem ég hafði ekki prófað áður. Gekk með bakka og veiddi, kastaði, það er að segja, færðist smám saman niður með og var farið líða undarlega. Var þetta einhver bölvuð vitleysa? Létti aðeins þegar ég sá fótspor á bakkanum. Einhver hafði þá verið hér áður. Svo kom annar gaur og veiddi í humáttina á eftir mér. Ég hugsaði með mér að þar færi veiðilegur maður, hann hlyti að vita allt um þennan stað. Svo sá ég auðvitað að eins líklegt væri að hann hugsaði eins um mig. Haltur leiðir blindan! Mönnum finnst einhvern veginn að þar sem eru fleiri að veiðum hljóti að vera meiri speki á ferðinni. Svo er ekki. Flestir eru bara latir og nenna ekki að ganga langt frá bílastæðinu, eða nenna ekki að vaða yfir ána, eða brölta fyrir snös. Eitt af því mergjaðasta sem veiðimaður gerir er að koma fiskinum á óvart. Einn stakur sem hefur ekki séð flugu í hálfan mánuð er jafnvel líklegri bráð en torfa sem sér ekkert nema Peacock allt sumarið! Leitaðu!

 

2)   Fæla fiskinn með því að þramma fram á bakka og vaða út. 

   

Hversu oft? Hversu oft höfum við ekki séð flokk manna koma þrammandi niður að vatni, vaða út í eins langt og vaðið verður og þenja svo köstin eins langt út og mögulegt er? Þetta eru líklega algengustu mistök veiðimanna. Fiskurinn er nær en þú heldur. Ég sem er búinn að prédika þetta í 400 pistlum um fluguveiðar og  er enn að fæla frá mér fiska með ónærgætni við frið vatnanna.

 

3)   Byrja að veiða strax!  

   

Búinn að aka hálfan dag, koma sér fyrir í húsi, skunda á vettvang, setja saman með titrandi höndum, loksins kominn á staðinn: KASTA! Nei. Fyrst á að horfa og hlusta. Fara niður að vatni eða straumi, horfa, hlusta, slappa af. Er æti á ferðinni? Er fiskur á ferðinni? Hvar? Hvernig? Fimm mínútur geta borgað sig vel. Kortér er mátulegt, en þar sem ég er ekki maður til að hinkra svo lengi sjálfur segi ég aðeins: Það borgar sig að bíða, horfa og hlusta, því lengur því betra. Það heldur hvort sem er enginn lengur út en 15 mínútur.

 

4)   Að veiða eins og virkaði síðast. 

 

Carpe diem! Gríptu daginn. Ekki minninguna um hvernig hann tók síðast. Breyttu til. Allt í lagi. Auðvitað tekur maður fram fluguna sem náði fimm punda urriða á þessum stað í fyrra. Einmitt á þessum stað. Og reynir hana. En ekki festast í farinu. Hafi hann tekið Wooly bugger, þyngdan, í fyrra, er eins víst að hann geti tekið svarta lirfu sem kastað er andsreymis og látin reka frjáls núna.

 

5)   Of þungar græjur. 

   

Ef þú notar yfirleitt tvíhendu áttu að hugsa þig alvarlega um: Er tvíhenda raunverulega það sem þarf þegar meðalþyngdin er 4-5 pund í laxi? (Norðurá, Kjósin, Rangárnar). Jú, það er alltaf möguleiki að setja í 14 pundara, en létt einhenda leikur sér að slíkum fiski. Líka 20 pundara. Stærð fisksins skiptir ekki máli við val á stöng, heldur vatnið sem hann er í.

Silungsveiði: Ef þú átt ekki stöng fyrir línu fimm eða sex heldur bara þyngra áttu að skipta niður við fyrsta tækifæri. Létta stöngina og línuna og tauminn og fluguna...og fiskinn kynnu sumir að botna, en svo þarf ekki að vera. Flestir fiskar stækka mjög við að vera teknir á léttar græjur. Ánægjan er margföld. Ögrunin meiri. Og hvað með það þótt 27 punda fiskur sleppi af því að maður var með einhendu???

höf.  Stefán J. Hafstein

       

 

     ---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Umhirða á flugulínum.

 

Séu myndirnar skoðaðar hér að neðan má vel sjá hvernig hreinsun getur gjörbreytt línunni.

 

 

 

Umgengni.

 

Margt getur valdið því að flugulínan þín skemmist.  Það gerist að menn stíga á línuna eða slá henni í jörðina í bakkastinu.  Sérstaklega á það við um byrjendur sem eru að ná tökum á kasttækninni.  Þess vegna velja margir Concept línuna frá Sientific Anglers í byrjun en færa sig yfir í Ultra 3 línuna síðar.  Þá getur línan marist í hjólinu milli spólu og hjóls, eða af öðrum ástæðum.

Húðin getur einnig farið illa af fleiri ástæðum.  Sumir algengir vökvar innihalda t.d. leysiefni sem geta skaðað húðina.  Má þar nefna sólarolíu, flugnafæliáburð, flotefni fyrir flugur, eldsneyti og sum línuhreinsiefni.

 

 

Umhirða.

 

Eitt er það þó sem dregur mjög úr frammistöðu og sérstaklega floteiginleikum línunnar, en það eru óhreinindi alls konar.  Erfitt er að forðast að margs konar þörungargróður setjist á línuna þegar veitt er.  Þörungagróðurinn safnar í sig vatni og uppleystur fínn jarðvegur festist auðveldlega í þörungunum.  Slík óhreinindi geta verkað á við sandpappír og eru þess t.d. dæmi að flugulína hafi myndað skorður í fluguhjól úr léttmálmi líkt og beitt væri þjöl svo gróf getur húð línunnar orðið.  Menn geta því ímyndað sér hversu mjög slík óhreinindi geta hægt á rennsli línunnar í gegnum lykkjurnar þegar kastað er.

Við þessu er auðvelt ráð.  Línuna má þvo með örfáum dropum af sápu, t.d. í baðkari, eða nota mjúkan, rakan og hreinan klút.  Notið ekki þvottaefni (detergent) þar sem það getur skemmt húð línunnar.  Gætið þess einnig að sápan innihaldi ekki ilmefni sem gætu truflað veiðar síðar.  Sápuna á að hreinsa af línunni.  Oftast er einungis nauðsynlegt að hreinsa fyrstu 10 til 20 metra línunnar, þ.e. þann hluta sem er í vatninu.  Óhreinindin uppgötvast stundum í miðri veiði, og má þá nota vasaklút eða skyrtulöfin og hreint vatn til að bjarga sér þótt best sé að nota sápu.  Einnig er er selt slípipúði frá Scientific Anglers sem eru góðir til að hreinsa línur.  Hreinsi- og áburðarefnin sem er selt frá Scientific Anglers og Loon eru mjög góð til að bera á flotlínur eftir hreinsun, bæta flothæfni og rennileika í lykkjum.  Menn verða þó að varast að bera flotefni á sökklínur sem stundum gerist óvart og uppgötvast ekki fyrr en við veiðar þegar línan sekkur orðið treglega.

 

Hér kemur svo álit Stefáns Jóns Hafsteins um meðferð flugulínunar, ég skora á menn að fara eftir þessu !

 

Hreint og klárt.  Í orðsins fyllstu merkingu.  Þetta á einkum við flotlínur sem liggja innan um allt lífræna rekið og klakið í ám og vötnum, svo ekki sé minnst á allt þetta ryk og annað sem fýkur yfir og leggst á vatnsfilmuna.

Línubón fæst í flestum veiðibúðum.  Einfaldast er að draga línuna út þar sem aðstæður eru hagkvæmar, ekki hætta á að hvassar gjóteggjar skeri hana, eða ryk setjist á.  Grasgræna er ekki góð fyrir línur, svo gæta verður að ef hún er lögð á gras, að draga hana ekki eftir því.
Farið eina umferð eftir línunni með klúti, dragið hana einfaldlega í gegnum greip ykkar þar sem klúturinn hvílir, og vinnið frá stönginni og út.

Síðan er sett smá bónklípa í klútinn og farin önnur umferð, og svo lokaumferð með hreinum hluta klútsins.  Takið eftir svörtu rákinni þar sem þið dróguð línuna í gegn fyrst!

Línan er nú undin upp á hjólið og gengið inn jafn hratt og maður dregur, svo línan dragist ekki eftir jörðinni.

Köstin verða miklu betri á eftir.  Þetta tekur tvær mínútur á bakkanum fyrir vanan mann.

 

Höf: Þórir Grétar Björnsson

 

     -------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

 

Vatnafiskar.

 

Fisktegurndir í ferksvatni.

 

Sex tegundir vatnafiska finnast í íslenskum vötnum, fimm eru upprunalegar en ein er innflutt. Tegundirnar eru þessar:

Af laxaætt:

Lax (Salmo salar). Hrygnir í ferskvatni, elst þar upp 2-6 ár, gengur til sjávar, dvelur þar 1-2 ár og verður þar kynþroska. Gengur úr sjó í ferskvatn til að hrygna.

Urriði (Salmo trutta). Elur oftast allan sinn aldur í ferskvatni, vatnaurriði. Gengur einnig til sjávar á sumrin, sjóurriðisjóbirtingur. Hrygnir alltaf í ferskvatni.

Bleikja (Salvelinus alphinus). Oftast staðbundin í ferskvatni allt árið, vatnableikja, murta. Gengur einnig til sjávar á sumrin, sjóbleikja, sjóreyður. Hrygnir alltaf í ferskvatni

Regnbogasilungur (Salmo gardineri). Innfluttur. Í heimkynnum sínum hrygnir hann í ferskvatni að vori til. Staðbundinn, gengur oft til sjávar (steelhead). Innfluttur frá Ameríku til Evrópu til nota í fiskeldi. Tímgast ekki í náttúrunni utan upprunalegra heimkynna sinna.

Af Álaætt:

Áll (Anguilla anguilla). Hrygnir í sjó (Saragasso haf), lirfurnar berast með Golfstraumnim, gengur í ferskvatn eða hálfsölt lón til uppvaxtar.

Af hornsílaætt:

Hornsíli (Gasterosteus aculeatus). Hrygnir og er algengast í ferskvatni. Dvelur einnig í hálfsöltum lónum, gengur oft í sjó á sumrin.

 

 

Lax.

 

Ferskvatnsdvöl, hrygning og uppvöxtur

Laxinn hrygnir í ánni að hausti, þeirri sömu á og hann fæddist sjálfur í, og hrognin klekjast út vorið eftir. Hann velur sér fremur grófan malarbotn til hrygningar. Hrygnan grefur hrognin niður í mölina og eru þau 20-40 sm dýpi niðri í mölinni. Fyrstu vikurnar eftir klak nærast seiðin (pokaseiði) á forðanum sem þau hafa í kviðpokanum. Þá eru þau ljósfælin og halda sig niðri í mölinni. Þegar kviðpokinn er að verða búinn koma þau upp úr mölinni og fara að leita sér fæðu í ánni. Þeirra fer fyrst að verða vart um og eftir miðjan júni, allt eftir hitastigi.

Seiðin eru í ánni 2-6 ár og ná á þeim tíma nægilegri stærð og þroska til þess að geta gengið til sjávar. Seiðin þurfa að ná ákveðinni stærð (11-13 sm lengd) áður en þau fara til sjávar og tíminn sem það tekur ræðst af vaxtarskilyrðum í ánni, en þau geta verið mjög mismunandi. Ár eru mismunandi næringarríkar, auk þess skiptir almennt tíðarfar máli. Þéttleiki seiða í ánni hefur mikil áhrif á vöxt þeirra: Því færri seiði á flatareiningu, þeim mun hraðari vöxtur. Þetta má greinilega sjá þar sem pokaseiðum er sleppt í ár ofan laxgengra fossa. Ef hæfilegum fjölda er sleppt ná þau göngustærð á 2-3 árum en neðan við fossinn, þar sem laxinn hrygnir sjálfur og þéttleiki seiða er mjög mikill, tekur það seiðin 4-5 ár að ná sama þroska (stærð).

Sjávardvöl

Á 3.-6. vori ganga laxaseiðin til sjávar og koma aftur í ána 1-2 árum síðar til að hrygna og hafa þau vaxið gríðarlega við dvölina í sjónum. Allir laxar sem ganga í árnar eru kynþroska.

Seiðin eru 15-25 g þegar þau fara í sjó, ári síðar er laxinn orðinn um 2.5 kg (smálax), og eftir 2 ár í sjónum er hann orðinn 4-7 kg (stórlax).

Ævilok

Mestur hluti laxins deyr að lokinni hrygningu. Þeir fáu sem lifa hana af ganga aftur til sjávar vorið eftir hrygninguna (hoplax) og koma aftur sama sumar og hafa ekki bætt neinu við sig í þyngd frá því árið áður, einungis unnið upp þyngdartapið sem varð við hrygninguna og vetrardvölina í ánni. Laxinn hættir að éta nokkru áður en hann gengur í ána til hrygningar og hann étur ekkert í ánni fram að hrygningu. Þar sem hrognin eru ekki fullþroskuð þegar hann kemur, verður hann að breyta líkamsvefjum í hrogn. Hann er því orðinn nokkuð rýr þegar hrygningin fer fram.

 

Bleikja.

 

Útbreiðsla

Bleikjan hefur mesta útbreiðslu laxfiskanna á Íslandi. Hún er hánorænn fiskur og kom fyrst allra fiska upp í árnar í lok síðustu ísaldar. Hún hefur því haft tækifæri til þess að komast lengst frá sjó þar sem landið lá þá dýpra í sæ en síðar varð. Urriðinn og laxinn komu síðar og komust því ekki eins langt inn í landið og bleikjan. Þó enn megi sjá þessa skiptingu, þá hafa fiskflutningar manna þurrkað út myndina að mestu. Það var t.d. enginn urriði í Skorradalsvatni þar til fyrir nokkrum árum að honum var hjálpað þangað. Þegar urriðinn, sem er varmakærari en bleikjan, nam ána fyrir neðan, hefur fossinn í Andakílsá verið kominn upp úr sjó og lokað honum leið. Bleikjan hefur verið komin áður. Bleikjan finnst allt í kring um hnöttinn norðanverðan og er sama að segja um þessi svæði að hún hefur numið land á flestum stöðum eftir síðustu ísöld. Hún hefur því ekki verið í sínum núverandi heimkynnum nema í u.þ.b.10000 ár. Syðri mörk útbreiðslusvæðisins í Evrópu eru Alpafjöll, en þar er hún í mörgum vötnum frá láglendi upp í hæstu fjallavötn. Á miðöldum var nokkuð um að bleikja í Ölpunum var borin milli vatna.

 

Lífshættir

 

Annað hvort elur bleikjan allan sinn aldur í fersku vatni, vatnableikja, eða hún gengur reglubundið til sjávar og nefnist þá sjóbleikja. Því norðar sem bleikjan lifir á hnettinum þeim mun algengara er að finna sjóbleikju og öfugt. Má þó segja að engin föst regla sé á þeim hlutum. Staðbundin bleikja er mjög ólík í útliti milli hinna ýmsu vatna og oft innan sama vatns. Þetta hefur orðið til þess að margir álíta að um margar tegundir eða stofna sé að ræða, en þrátt fyrir miklar rannsóknir hefur ekki tekist að finna nægjanlegan erfðafræðilegan grundvöll fyrir slíku. Þar sem vötn eru í sambandi við sjó er algengt að finna þrjár "gerðir" af bleikju: Sjóbleikju, venjulega staðbundna bleikju og dvergbleikju. Í vötnum sem eru nægilega djúp til að hafa eiginlegt svifsamfélag sérhæfir bleikjan sig oft sem svifæta og nefnist þá murta. Samband þriggja gerða af bleikju í einu og sama vatninu í Noregi hefur verið rannsakað með hliðsjón af því hvort þær tilheyri einum og sama hrygningarstofni þ. e. hvort hér sé um eina og sama stofninn að ræða (Nordeng 1961,1983). Þar kom ýmislegt óvænt í ljós. Sjálfur túlkaði norski prófessorinn Hans Nordeng (Nordeng 1984) niðurstöður tilrauna sinna á eftirfarandi hátt:

"Á vatnasvæði Salangenárinnar í Noregi hrygna venjuleg bleikja, dvergbleikja og sjóbleikja á mismunandi stöðum. Afkomendur foreldra af þessum gerðum þroskast í aðalatriðum á sama hátt: Kynjaskipting hjá seiðum undan öllum gerðunum er 1:1. Á æskuskeiðinu, sem stendur í 7 ár, verður nokkuð af fiskunum kynþroska við tveggja til sjö ára aldur. Þeir eru þá 10-28 sm að lengd. Fiskar sem eru 10-21 sm langir (2-6 ára) hafa bleikgráan riðabúning. Þetta er staðbundna dvergbleikjan. Fiskar sem eru 21-28 sm langir (3-7 ára) fá gulan eða rauðan riðabúning. það er venjulega (stóra) staðbundna bleikjan. Fyrstu fiskarnir sem verða kynþroska í hverjum árgangi eru hængar. Þess vegna verður hlutfall hænga sem verða kynþroska 2-6 ára gamlir hærra hjá dvergbleikjunni (4:1) en þeirri stóru staðbundnu (2:1), en hún verður ekki kynþroska fyrr en 3-7 ára gömul. Þau seiði sem ekki verða kynþroska á æskuskeiðinu, verða að gönguseiðum (sjóbleikja) sem ganga til sjávar (3-7 ára gömul og 17-27 sm löng). Þar sem hængar voru í meirihluta hjá staðbundnu bleikjunni hlýtur sjóbleikjan að hafa hrygnur í meirihluta (3:1)".

Hans Nordeng gerði einnig eldistilraunir sem styrktu þessa tilgátu. Hann tók hrogn úr öllum þrem bleikjutegundunum og ól upp hvern seiðahóp fyrir sig. Það sýndi sig að afkomendur hverrar gerðar um sig skiptust í þrjá útlitshópa á sama hátt og hann hafði fundið hjá bleikjunni í Salangen. Nordeng dró þá ályktun af þessu að allar gerðirnar tilheyrðu sama stofni og deildu sömu erfðaefnum.

 

Lífsferill vatnableikju

 

Hrygning hefst yfirleitt þegar líða tekur að hausti, frá seinniparti ágústmánaðar fram að jólum, sumstaðar hefst hún enn síðar og getur þá staðið fram í mars, mismunandi eftir vötnum. Fer það eftir svæðisbundnu hitafari, en fiskar stíla upp á að seiðin klekist á þeim tíma vors sem fæðudýrin eru að vakna. Eins er líklegt að hrygningartíminn breytist í takt við árferðið. Hrognin klekjast á þremur mánuðum við 3-4 gráðu hita. Það tekur seiðin um tvo mánuði að klára kviðpokann, svo fimm mánuðum eftir hrygningu verða seiðin að vera farin að finna sér fæðu sjálf. Seiði frá hrygningu í desember eru því að fara á kreik í maí. Seiðin eru 12-17 mm við klakið og 22-26 mm þegar kviðpokinn er búinn og þau fara að afla sér fæðu. Enn er lítið vitað um seiðin frá því að kviðpokastigi lýkur og þar til þeirra verður vart í smáriðin net, liðlega ári síðar. Þá eru þau orðin 10-12 sm að lengd. Ástæða þessa þekkingarskorts er að aðferðir skortir til þess að finna svo smáa fiska. Einungis er unnt að ná seiðum með rafmagni í fjörum, sú aðferð dugir hins vegar ekki á djúpu vatni. Aðalfæða seiðanna sem lifa í fjöruborðinu eru oft mýlirfur og smá krabbadýr. Eftir tvö ár er bleikjan orðin 20-22 sm að lengd og þriggja ára er hún 28-32 sm. Vöxturinn er breytilegur, sum árin vex bleikjan vel og sum illa, fer það eftir fæðuframboði og árferði.

 

Kynþroski og hrygning

 

Í bleikjuvötnum er mjög misjafnt hve stór eða gömul bleikjan er þegar hún hrygnir í fyrsta skipti. Gjámurturnar á þingvöllum eru t.d. kynþroska 8 sm langar og í Mývatni eru hrygnurnar stundum 50-60 sm þegar þær hrygna í fyrsta sinni. Sýnt hefur verið fram á að samband er á milli þeirrar hámarksstærðar sem bleikjan getur náð í ákveðnu vatni, og stærðar (lengdar) hennar við fyrstu hrygningu. Hámarksstærðin er um 20% meiri en kynþroskastærðin. Með kynþroskastærð er átt við stærð hrygnanna í fyrsta sinn sem þær hrygna, stærð hænga við hrygningu er yfirleitt óbrúkleg vegna s.k. dverghænga sem eru algengir hjá laxfiskum.

Þetta má túlka þannig að vaxtarskilyrði (fæðuskilyrði), fæða, fæðuöflun, samkeppni, ráði meiru um kynþroskastærðina en erfðaþættir. Sagt á annan hátt: Kynþroskastærðin er mælikvarði á fæðuskilyrðin hverju sinni. Þetta hefur komið glögglega fram í Mývatni í þeim mjög svo breytilegu fæðuskilyrðum sem þar hafa verið síðustu árin. Veturinn 82-83 var kynþroskastærðin á Geiteyjarströnd um 40 sm og hámarksstærð ufir 60 sm. Vaxtarskilyrði voru mjög góð í vatninu árin 1981 og 82. Veturinn 1985-86 var kynþroskastærðin 35 sm og hámarksstærðin innan við 50 sm (með undantekningu nokkurra fiska). Árin 1983 og 84 voru fæðuskilyrði afar léleg í vatninu.

 

Fæða-fæðuöflun-samkeppni

 

Vöxtur og viðgangur fiska fer eftir fæðuskilyrðum hverju sinni. Sé lítið um mat er vöxtur hægur, ef nóg er að hafa vaxa þeir vel. En ekki er nóg að magn fæðu sé fyrir hendi, hún verður að vera auðfengin og auðmelt. Bleikjan er dýraæta, þ.e. hún getur ekki nærst á fæðu úr jurtaríkinu. Þegar fæðuskilyrði eru góð og samkeppni lítil um matinn, nærist bleikjan á krabbadýrum og eru kornáta (Eurycercus lamellatus) og vatnsfló (Daphnia longispina) oft í mestu uppáhaldi. Þegar rykmýið flýgur upp étur hún það eingöngu, enda er mýið fæða sem er auðvelt að ná í og yfirleitt er um stóra munnbita að ræða. Þetta gildir á sumrin, en vetrarfæðan er mest mýlirfur þegar þær er að hafa, annars eru smá hornsíli oft algeng fæða að vetri til.

Hið almenna mynstur í góðum fæðuskilyrðum er oft þetta: Eftir að ísa leysir á vorin étur bleikjan nær eingöngu mýpúpur. Eftir að mýið er flogið fer að bera á smákrabba í fæðunni, fyrst vatnsfló, siðan kornátu er líða tekur á sumarið. Þessi dýr eru étin langt fram eftir hausti, með íblöndun mýpúpa þegar þær eru á ferðinni. Stundum er skötuormur (Lepidurus articus) aðalfæðan seinnipart sumars og á haustin, en mjög virðist misjafnt hve mikið er af honum frá ári til árs.

Þegar fæða minnkar og samkeppni eykst, breytist fæðunámið verulega.

Til þess að hægt sé að átta sig á því hvernig og hvers vegna fæðunámið breytist, er rétt að fjalla aðeins um hvernig bleikjan fer að því að éta og hvernig samkeppnisaðstaða og fæðuþörf einstakra fiska breytist með stærð.

Þegar bleikjan tekur til sín fæðuna opnar hún munninn mjög snöggt þannig að fæðudýr sem er fyrir framan fiskinn, sogast inn í munninn. Svo lokar hún munninum tiltölulega hægt og pressar vatnið út á milli tálknboganna. Á tálknbogunum eru tindar sem mynda eins konar greiðu, tálknsíuna, sem hindrar fæðudýrin að komast út með vatninu. Þegar vatnið er farið út, er fæðunni "kyngt". Bilið milli tindanna í tálknasíunni ákvarðar stærð fæðudýranna sem verða eftir. Ef dýrin eru smávaxnari en bilið fara þau út með vatninu. Það eru því takmörk á því hve smá dýr bleikjan getur étið. Bleikja hefur fínni tálknasíu en urriði og getur því étið smærri agnir. Þess vegna finnast svifdýr sjaldan í urriðum sem komnir eru af æskuskeiði. Smáar bleikjur hafa fínni síu en stórar og geta því nýtt sér smærri dýr.

Vert er að hafa í huga að fæðuskilyrði í vötnum geta rýrnað á tvo vegu: Annað hvort getur framleiðsla fæðudýra minnkað almennt, td. vegna verri umhverfisskilyrða, hita, kulda, áburðarleysis, gruggs eða þess háttar, eða vegna þess að fiski fjölgar miðað við fæðuframboðið. Síðarnefnda ástæðan virðist yfirleitt miklu algengari.

Ef skoðað er í maga fiska við slík skilyrði kemur í ljós að magainnihald einstaklinganna er oft æði misjafnt, gagnstætt því sem finnst í góðæri og áður var minnst á. Eins er fæðusamsetningin í maga hvers einstaklings oft mjög blönduð. Þetta ber vott um samkeppni, einstaklingarnir lifa á þeirri fæðu sem þeir eru hæfastir að ná í. Þar sem smáfiskar eru hæfari til þess að ná í smá dýr, getur svo farið í slæmum tilfellum að þeir aféti stærri fiska, a.m.k. er varðar sumar fæðutegundir. Það má t.d. hugsa sér að smáfiskur beiti sum krabbadýr svo skart, að ekki nema lítill hluti þeirra nái þeirri stærð að geta nýtst stórum fiski. Stórir fiskar verða því að snúa sér að stærri dýrum af tegundum sem ekki eru étnar undir eðlilegum kringumstæðum. Í Mývatni og fleiri vötnum, eru þettra vatnabobbi (Lymnaea ) og hornsíli.

Hornsíli eru torétin vegna gaddanna og bobbinn er tormeltur vegna kuðungsins, enda finnast þessi dýr sjaldan í bleikjumögum þar sem nóg er af annarri fæðu.

 

Murta

 

Þetta er nafn á sviflægri smábleikju í Þingvallavatni en er einnig notað um sviflæga bleikju í öðrum vötnum. Í vötnum þar sem bleikjan lifir á svifi, t.d. murtan í Þingvallavatni, Vesturhópsvatni, Skorradalsvatni og Svínavatni, má sjá hvernig samkeppnin fæðudýrin kemur fram í þeirri hámarksstærð sem fiskarnir ná.

Vitað er að ef fiskur er settur í fisklaust vatn breytist samsetning svifdýranna. Stærstu tegundirnar hverfa að mestu og það sem meira er, hámarksstærð einstaklinga sömu tegundar fer minnkandi við tilkomu fiskjar í vatnið. Þetta er vegna þess að stærstu dýrin eru valin til átu. Því meira sem er af fiski hlutfallslega, þeim mun smærra verður dýrasvifið. Að því kemur að að stærð fæðudýranna og sú næring sem þeir gefa fiskinum, kemst í jafnvægi við þá orku sem kostar að afla þeirra. Fæðan er aðeins næg til viðhalds en um vöxt er ekki að ræða. Smáfiskurinn stendur betur að vígi þar sem fæðuþörf hans er minni, og hann er fær um að nýta sér smærri dýr. Hann vex því vel meðan hann er smár en snögglega dregur úr vextinum þegar hann nálgast hámarksstærðina. Þegar stofn sviflægrar bleikju er skoðaður, virðast allir fiskarnir vera steyptir í sama mót. Allir eru álíka stórir þtt þeir séu misgamlir. Hámarksstærðin sem þeir geta náð ákvarðast af sambandinu milli nýliðunar og dánartölu annars vegar og heildarframboði af svifdýrum hins vegar. Þetta hlutfall er breytilegt í hinum ýmsu vötnum og það getur einnig breyst með tíma í einu og sama vatni. Þess vegna verður hámarksstærðin mismunandi milli vatna.

Sem dæmi má nefna að hámarksstærð Þingvallamurtu hefur verið 19.5-25.5 sm eftir tímabilum, 12-14 sm á murtu í Skorradalsvatni, 23-25 sm í Svínavatni og 27-29 sm í Vesturhópsvatni.

 

Sjóbleikja

 

Sjóbleikja gengur til sjávar á vorin, oft strax eftir að ísa leysir. Hún er í sjónum 6-8 vikur, þá gengur hún aftur í ána. Stærri og eldri fiskarnir koma til að hrygna og hafa vetursetu, ókynþroska fiskar eingöngu til að hafa vetursetu. Stærstu og elstu fiskarnir ganga fyrstir upp í ána, ungur og geldur fiskur kemur seinna. Bleikjan er 12-20 sm að lengd þegar hún gengur til sjávar í fyrsta skipti og er þá 2-6 ára gömul. Í sjónum fer hún ekki langt, heldur sig mest innfjarða í nánd við ána sína. Hún lifir á marfló og smásílum og stækkar hratt í sjónum. Bleikjan er ekki í sjó á veturna og hún hrygnir í ánni sem hún ólst sjálf upp í. Oft safnast margir bleikjustofnar saman á einum stað sem hentugur er til vetrardvalar. Þannig má finna á veturna í Norðurá í Borgarfirði bleikjur, sem áður hafa hryngt í þverám Hvítár uppi við Gilsbakka á Hvítársíðu

 

Urriði.

 

Lífshættir

 

Eins og áður sagði nam urriðinn land á eftir bleikjunni og finnst því ekki í eins mikilli hæð og hún, þó svo fiskflutningar manna hafi mjög svo ruglað þá mynd. Urriðinn er varmakærari en bleikjan og gerir meiri kröfur til umhverfisins. Hann hefur litla möguleika á að keppa við bleikju í hrjóstrugum ám og finnst því ekki þar. En við góð skilyrði hefur hann betur í samkeppninni, en þá fer einnig að gæta samkeppni frá laxinum. Urriðinn finnst því helst í ám sem eru "í meðallagi" ef svo mætti að orði komast. Eins má búast við honum ofan fiskgengra fossa í laxám. Urriðinn er fyrst og fremst straumfiskur. Hrognin þurfa mikið súrefni og hann hrygnir nær undantekningarlaust í rennandi vatni. Eftir klak leita seiðin úr ám og lækjum í vötnin nema þar sem árnar renna beint í sjó, þá ganga þau til sjávar og við tölum um sjóbirting. Mismunandi er hve lengi seiðin dvelja í ánum eftir hrygninguna, áður en þau leita í vötnin. Virðist það fara eftir næringarástandi ánna. Ef skilyrði eru léleg yfirgefa þau þær snemma, en ef góð vaxtarskilyrði eru í ánum geta jafnvel liðið nokkur ár uns seiðin fara að ganga úr þeim í viðkomandi vatn. Svo virðist að fæðuskilyrðin stjórni þessu: Þegar ekki er lengur matur og pláss handa uppvaxandi fiski, verður að róa á önnur mið. Ár og lækir sem renna úr vötnunum eru næringarríkari og vatnsmeiri en þær sem renna í vötnin. Þess vegna eru bestu uppeldisstöðvar urriðans yfirleitt í afrennsli stöðuvatnanna.

 

Samkeppni, fæða

 

Oft er talað um að urriðinn sé ránfiskur hinn mesti og á það sér væntanlega skýringar í því að oft finnast fiskseiði í maga hanns. Ef betur er að gáð eru seiðin yfirleitt hornsíli, en stundum má einnig finna bleikju í maga hans, einkum í vötnum þar sem er murta eins og t.d. í Þingvallavatni. Einkum eru það stærri fiskarnir sem leggja sér bleikjuna til munns. Annars eru botndýr aðalfæða urriðans. Þar má nefna vorflugulirfur, mýlirfur og púpur, vatnabobba og skötuorm. Mjög sjaldgæft er að hann éti sín eigin afkvæmi, jafnvel í ofsetnum hreinum urriðavötnum, þar sem allur fiskstofninn er á hungurmörkum, stenst hann freistinguna.

Ef litið er á vötn af svipaðri gerð þar sem annars vegar er eingöngu urriði, og hins vegar eingöngu bleikja og fæðuval fiskanna er skoðað, kemur í ljós að fæðunám þessarra tegunda er mjög svipað. Bæði urriði og bleikja éta nánast sömu fæðudýr ef þau eru eina fisktegund vatnsins. Séu tegundirnar saman í vatninu kemur allt annað í ljós. Urriðinn heldur sig aðallega í fjörubeltinu , á grunnu vatni, og lifir þar á vorflugulirfum og botndýrum en bleikjan er fjær ströndinni og dýpra og nærist aðallega á krabbadýrum. Hér ríkir samkeppni milli tegundanna, og hvor tegundin um sig étur það sem hún er færari að ná í. Ef hornsíli er einnig í vatninu, flóknar málið enn og margt sem sjá má í fjöltegunda vötnum, má skýra með mismunandi kröfum sem tegundirnar gera til umhverfisins og hvernig umhverfið gerir þeim mishátt undir höfði. Velgengni urriðans í slíkri samkeppni fer t.d. eftir því hve hann hefur góðar hrygningarstöðvar. Hann þarf rennandi vatn til hrygningar og sé bleikja sett út í urriðavatn sem hefur lítil tengsl við ár og læki, getur urriðinn horfið vegna samkeppninnar sem bleikjan veitir honum. Ef hrygningarstöðvar eru góðar heldur hann velli, en breytir oft mjög um lífshætti. Vaxtarhraði, svæðaskipting og fæðunám laga sig að hinum nýju aðstæðum.

Urriðinn étur fisk þegar hann er kominn í þrot með annan mat. Þess vegna er hægt að nota hann til þess að hafa áhrif á aðra fiskstofna. Þar sem mikið er um urriða, vegna þess að hrygningarstöðvar eru mjög góðar, eins og t.d. í Apavatni, verður ekki vart við ofmergð hornsíla eins og þekkt er í Mývatni. Hann virðist sjá um að halda fjölgun hornsíla innan vissra marka.

Oft eru fiskar sem lifa á öðrum fiskum, eins og urriðinn t.d, viðkvæmir fyrir veiði. Þeir hafa mikla yfirferð, eru stórir og veiðast því vel. Mikil sókn með stórriðnum netum hefur það í för með sér að fiskætum fækkar og í verstu tilfellum taka smáfiskarnir yfirhöndina. Ef dæminu er snúið við, má fækka smáfiski með því að bæta lífslíkur fiskætanna.

Þannig mætti setja út stálpaðan urriða, sem gjarnan væri búinn að læra að éta hornsíli. Jafnframt þyrfti að smækka netamöskva til þess að hlífa stóru fiskunum svo þeir geti haldið áfram að beita hornsílastofninn. Þegar Sogið, sem fellur úr Þingvallavatni, var virkjað eyðilögðust helstu hrygningarstöðvar urriða við vatnið og urriða fækkaði. Tilgátur eru um að við það hafi murtu fjölgað í vatninu og hún um leið smækkað. Eins hefur orðið vart við sveiflur í stærð og mergð murtunnar. Murtuveiðar voru nær engar tímabilið 1986- 91, hún var þá svo smá að hún fór í gegn um netin. Hún hefur svo stækkað aftur síðustu árin.

 

Sjóbirtingur

 

Þegar urriðinn gengur til sjávar nefnist hann sjóbirtingur. Lífsferillinn er sviðaður og hjá sjóbleikju, helsti munurinn er að hann dvelur lengur í sjónum, gengur seinna upp í árnar á haustin, yfirleitt ekki fyrr en nótt tekur að dimma. Hann er ekki í sjó á veturna en veiðist of vel á vorin þegar hann er að ganga til sjávar, þá alsilfraður.

 

 

Hornsíli.

 

Hornsílið er smár fiskur og verður yfirleitt ekki stærra en 5-7 sm . Stundum finnast mun stærrri síli, m.a. í Mývatni, eða allt að 10-12 sm að lengd. Hornsílið hefur enga beina efnahagslega þýðingu og er ekki veitt til nytja. Lítið er enn vitað um vöxt hornsíla í íslenskum vötnum, eða hversu gömul þau geta orðið. Það er ekki fyrr er á síðustu árum að hornsíli hafa verið rannsökuð hérlendis og þá einkum í Mývatni, í tengslum við kísilgúrvinnslu í vatninu. Á árunum 1988-9 virtust vera 4-5 stærðarhópar af sílum í vatninu. Þau stærstu eru um 10 sm að lengd, líklega fjögurra ára.

 

Hrygning og klak.

 

Hornsílin hugsa vel um afkvæmi sín, því þau gæta hrognanna meðan þau eru að klekjast og seiðanna fyrstu dagana eftir klakið. Þetta er ólíkt laxfiskunum sem grafa hrognin sín í mölina þegar best lætur og síðan ekki söguna meir. Hængurinn tekur að sér þetta hlutverk. Þegar líða fer að hrygningartíma fer hængurinn að búa til hreiður. Það gerir hann úr slýþráðum sem sem hann finnur sér, hann safnar þeim saman og vefur úr þeim kúlu sem er hol að innan. Op er á hliðinni og hann límir slýið saman með slími sem hann fær af sjálfum sér. Til þess að hreiðrið haldist stöðugra, ber hann í það sand. Hængurinn verður rauður á kviðinn um riðatímann. Þegar hreiðrið er fullgert reynir hann að lokka til sín hrygnur og fá þær til þess að hrygna í hreiðrið. Á hann oft í mikilli samkeppni við aðra hængi um hrygnurnar svo oft verður af mikill slagur. Nái hann í hrygnu þá gýtur hún eggjum sínum í hreiðrið og hængurinn frjógvar þau strax á eftir.

Hrogn hornsílanna eru stór miðað við sjálfan fiskinn og þar af leiðandi fá, tugir eða fá hundruð, eftir stærð hrygnunnar. Þetta er eðlilegt hjá fiskum sem hugsa svo vel um afkvæmi sín sem hornsílið gerir. Hver hrygna hrygnir mörgum sinnum yfir hrygningartímann. Hún gýtur eggjum sínum með fárra daga millibili og er alltaf að framleiða ný, þannig að frjósemin er miklu meiri en fjöldi hrogna sem finnast í hrygnunni á hverjum tíma gefur tilefni til að ætla. Hrognin klekjast á 2-3 vikum og allan tímann gætir hængurinn þeirra. Meðan seiðin eru ósjálfbjarga sér hann um að þau haldi sig í hreiðrinu og passar upp á að þau séu ekki étin af öðrum sílum sem eru sólgin í þau. Algengt er að hann fái fleiri en eina hrygnu til að gjóta í hreiðrið svo hann er meir og minna upptekinn við seiðauppeldi allan hrygningartímann. Hrygning hefst snemma sumars og stendur langan tíma og fer það sennilega eftur fæðuskilyrðum hve hrygningin stendur lengi fram á haustið.

 

Fæða

 

Hornsílin éta allt sem að kjafti kemur og því er gjarnan sagt um þau að þau séu gráðug. Nær væri að kalla þau alætur sem ekki gera sér rellu út af því hvaðan gott kemur.

Þetta hefur valdið því að þau hafa verið álitin skaðræðisdýr í vötnum þar sem þau éti gráðugt seiði og egg nytjafiska. Svona ályktanir voru algengar (og eru) meðan menn héldu að allt sem stæði fiskveiðum fyrir þrifum væri að mikið af fiski færist á fyrsta æviskeiði (friðunarstefnan). Ef hægt væri að koma í veg fyrir það myndi hagur veiðimanna vænkast, sbr. laxa- og silungaklak á fyrri hluta þessarar aldar. En það er ekki nóg að hafa urmul lítilla fiska, það verður líka að vera eitthvað handa þeim að éta (aflastefnan, veiðistefnan). Það er fremur að hornsílin séu í samkeppni við bleikju og urriða um fæðu og afétið þessa stofna. Hornsílaplágur eru þekktar t.d. úr Mývatni þar sem hornsílin valda því að bleikjustofninn hrynur vegna fæðuskorts og svo falla þau sjálf í valinn, einnig vegna fæðuskorts. Þegar svo fiski hefur fækkað ná fæðudýrin sér aftur á strik, það verður blómlegt fyrir fiska, þeim fjölgar og sagan endurtekur sig.

Rannsóknir á fæðunámi hornsíla á íslandi hafa verið slitróttar, en staðfesta í aðalatriðum það sem sagt er hér á undan, að þau séu lítt sérhæfð og éti nánast það sem býðst hverju sinni.

 

Samkeppni

 

Ber að hafa í huga að þó mikið sé af ákveðnum fæðutegundum í hornsílamögum þá þarf það ekki jafnframt að þýða að sama fæðutegund sé aðgengileg fyrir bleikju á sama tíma. Vegna smæðar sinnar geta hornsílin nýtt fæðuna fyrr (meðan fæðudýrið er smávaxið) en bleikjan. Hún hefur grófa tálknagreiðu miðað við hornsílin og missir meira af smæstu dýrunum í gegn.

Hornsílið getur því hugsanlega afétið bleikju með því að "klára" ákveðin fæðudýr áður en þau verða nægjanlega stór fyrir bleikjuna. Þegar bleikju eða urriðaveiðar eru stundaðar af krafti verður það oft til þess að hornsílum fjölgar. Veiðarnar minnka samkeppni og eru hornsílinu í hag þar sem óvinum þeirra fækkar. Í bleikjuvötnum sem eru laus við hornsíli er allt að því tífalt meira af bleikju en í sambærilegum vötnum þar sem hornsíli er til staðar ásamt bleikjunni.

 

Áll.

 

Hrygningarstöðvar álsins eru í Saragasso hafinu. Lirfurnar berast hingað með Golfstraumnum og tekur ferðalagið um þrjú ár. Lirfan er flatvaxin og kallast gleráll. Um það bil sem hún kemur upp að ströndinni verður myndbreyting á lirfunum og þær breytast í seiði sem líkjast fullorðnum ál, minna þá helst á litla ánamaðka, 5-10 sm langa. Seiðin taka sér búsetu í ám, vötnum eða sjávarlónum og alast þar upp til kynþroskaaldurs. Tekur það mislangan tíma eftir skilyrðum, líklega 5-10 ár. Fullorðni állinn gengur til sjávar að næturlagi á haustin. Hann á langa ferð fyrir höndum og er vel feitur. Állinn er oft veiddur á leið sinni til sjávar. Þar sem álar af stórum svæðum fara um þröng sund er mikið veitt af ál. Má þar nefna dönsku sundin. Hrygnurnar eru stærri en hængarnir og þar með verðmætari neysluvara.

Hér á landi var reynt að veiða ál til útflutnings. Sambandið, eitt stærsta fyrirtæki landsins í eina tíð, setti af stað veiðiverkefni á árunum 1960-70 að mig minnir. Veiðar gengu vel en illa gekk að halda utan um útflutning og sölu. Síðar hafa ýmsir lagt stund á álaveiðar en illa hefur gengið að selja, m.a. vegna þess að íslendingar þekkja ekki ál sem mat og meðhöndlun, reyking t.d. er vandasöm og kunnátta ekki fyrir hendi.

Eftir að jólahlaðborð urðu vinsæl í lok síðustu aldar fluttu menn inn ál til þess að hafa á borðum.

Höf.  Jón Kristjánsson, fiskifræðingur.

 

 

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Hnútar í fluguveiði


 

 

Á myndinni hér að ofan er sýnt, hvernig á að hnýta baklínu við flugulínu, 
flugulínu við taum, taum við taumefni og taumefni við flugu. 
Betri útskýringar á hnútunum er að finna hér að neðan. Myndirnar eru úr 
leiðbeiningarhefti frá Scott Fly Rod Co. "A Fly Rod & a Trout: The basic elements of fly fishing" og eru 
birtar með leyfi. Heftið er fáanlegt hjá Árvík hf. og kostar 1.220 kr.

 


Hjólahnútur (Arbor Knot) 


Línuhnútur (Albright Knot) 


Nálarhnútur (Nail Knot) 


3 í 1 rör fyrir nálarhnút frá C & F Design - nál, rör og segull 



1. Stingdu nálinni í kjarnann á flugulínunni og þannig í gegnum 
húðina. Settu taumendann í nálaraugað og togaðu nálina til baka. 



2. Festu taumendann við flugulínuna með nálarhnút


3. Hinn endinn á rörinu er með segul svo að auðveldara er að taka upp 
mjög smáar flugur úr boxi. 



Blóðhnútur (Blood Knot) 


Tvöfaldur rembihnútur (Surgeon´s Knot) 


Öngulhnútur (Improved Clinch Knot) 

© ÁRVÍK hf. 2008

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Veiða og sleppa

 

 

Þeim veiðimönnum fer fjölgandi sem sleppa stangveiddum fisk. Árið 1996 var um 2,3% laxveiðinnar sleppt aftur, en árið 2003 var þetta hlutfall komið upp í 15,7% að meðaltali, samkvæmt upplýsingum frá Veiðimálastofnun en þetta hlutfall er mjög breytilegt í ánum.  Það  er mikilvægt að það sé gert rétt á öllum stigum. Hér að neðan eru leiðbeiningar um hvernig er hægt að bera sig að.

 

 


Veiðarfæri

 

 

 

Mynd 1

 

Nota agnhalds-lausa króka eða klemma niður agnhöld, sjá mynd 1.

Nota fremur smáa króka/öngla.

Forðast að nota þríkrækjur, þær geta valdið óþarfa skaða á

 

Mynd 2

 

fisk. Ekki nota ryðfría króka.  Nota góð veiðarfæri sem tryggja fljótalöndun á fisk, forðast að ofþreyta fisk að óþörfu.

 

 

Nota háfa með hnútalausu neti sjá mynd 2 hægri. Gróf net og/eða með hnútum geta valdið skaða á augum, tálknum, uggum, slímhúð og valdið hreisturlosi.

 

 

 


Meðhöndlun

 

 

 

Mynd 3. Dæmi um ranga meðhöndlun.

 

Ávallt reyna að forðast að taka fisk úr vatni. Ef taka á mynd, þá á að reyna að gera það eins fljótt og mögulegt er.     

Hafa í huga að nýgenginn fiskur er viðkvæmari en leginn og því ber að meðhöndla hann samkvæmt því.
Forðast að reyna að vigta fisk, mæla fremur fisk með lengdarstiku, auðvelt er að áætla þyngd út frá lengd.
Forðast að nota hanska eða önnur efni til að ná góðu gripi á fisk.

Forðast að nota búnað til að halda fisk, slíkt getur skaðað hann.

Forðast að láta fisk berjast um við botn. Ekki taka fisk upp á sporðinum, sjá mynd 3.

 

 

 

Ef einhverja hluta vegna þarf að taka fisk og flytja, þá er ráðlegast að halda um styrtlu með annari hendinni og undir kvið fisksins með hinni.

 

 

 

Mynd 4 Fiski sleppt á réttan hátt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Að fjarlægja króka úr fisk

 

 

Gott er að hafa ávallt töng meðferðis.

Auðveldara er að losa krók úr fisk með töng.
Fjarlægja krók án þess að taka fisk úr vatni
Ef aðstæður eru erfiðar þá getur verið gott að skera línu í sundur til að auðvelda verkið.

 

 


Að sleppa fisk

 


Þegar fisk er sleppt er mikilvægt að halda haus fisks í staumstefnu og gefa honum góðan tíma til að jafna sig áður en honum er sleppt.
Ef merkja á fisk er nauðsynlegt að vera með búnaðinn við hendina til að tryggja fljóta afgreiðslu. Nota einungis samþykktan merkingarbúnað og nota samþykkt merki fyrir viðkomandi vatnakerfi. Númer merkja og stærð fiska skal skrá í veiðibók. Alla veiði skal skrá í veiðibók ásamt umbeðnum upplýsingum

 


 

Ef blæðir úr tálknum fisks eða hann skaddast illa í meðhöndlun, þá er ekki ráðlegt að sleppa honum.


 

Samband lengdar og þyngdar hjá laxi. Töfluna má nota til að sjá líklega þyngd ef lax er eingöngu lengdarmældur.

 

 

Lengd (cm) Þyngd (kg) Lengd (cm) Þyngd (kg) Lengd (cm) Þyngd (kg)
40 0,7 65 3,0 90 7,4
41 0,8 66 3,1 91 7,7
42 0,9 67 3,2 92 7,9
43 0,9 68 3,4 93 8,1
44 1,0 69 3,5 94 8,4
45 1,0 70 3,6 95 8,7
46 1,1 71 3,8 96 8,9
47 1,2 72 4,0 97 9,2
48 1,3 73 4,1 98 9,4
49 1,3 74 4,3 99 9,7
50 1,4 75 4,4 100 10,0
51 1,5 76 4,6 101 10,3
52 1,6 77 4,8 102 10,6
53 1,7 78 5,0 103 10,9
54 1,8 79 5,1 104 11,2
55 1,8 80 5,3 105 11,5
56 1,9 81 5,5 106 11,8
57 2,0 82 5,7 107 12,1
58 2,1 83 5,9 108 12,4
59 2,2 84 6,1 109 12,8
60 2,4 85 6,3 110 13,1
61 2,5 86 6,5 111 13,4
62 2,6 87 6,7 112 13,8
63 2,7 88 7,0 113 14,1
64 2,8 89 7,2 114 14,5

 

 

(Tafla fengin hjá Veiðimálastofnun


 

 

Veggspjaldið "Veiða sleppa" pdf skjal

 

Björn Theodórsson

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

Að nálgast fisk.

 

 

Við náum betri árangri ef við setjum okkur í spor bráðarinnar og reynum að hugsa eins og hún. En hvernig förum við að í tilviki fiskins? Hann er lítill hugsuður og skilur ekki eftir sig nein spor.

Það er einkum þrennt sem skapar kjöraðstæður fyrir silung og bendir okkur á hvar hann er að finna. Silungur þarf súrefni, hann þarf fæðu og í þriðja lagi öryggi sem góðir felustaðir veita. Silungur sækir þess vegna í þá staði þar sem vatn er súrefnisríkt t.d. þar sem vatsleysur eru í stöðuvatni. Þar getur silungurinn einnig kælt sig í kaldri uppsprettunni þegar vatnshitinn stígur í vatninu á sumrin. Silungur leitar einnig á þá staði sem færa honum fæðu með sem minnstri áreynslu, þó að því gefnu að hann hætti ekki lífi sínu við fæðuöflunina. Þess vegna fer silungur oft á stjá þegar skyggja tekur. Á daginn heldur hann til þar sem stutt er í skjól, ef hætta steðjar að, nema hann telji sig öruggan.

Mörg dæmi má nefna um staði þar sem þessir þrír þættir koma saman. Þá er t.d. að finna uppi á Arnarvatnsheiði. Þar renna ár á milli vatna og bera súrefni og fæðu af yfirborði úr einu vatni í annað. Silungur liggur þess vegna iðulega þar sem rennur inn í vatnið. Þar eru líka ákjósanlegustu felustaðir þar sem oft dýpkar snögglega eftir að rennur í vatnið. Silungurinn getur þannig sótt fæðu upp á yfirborðið en einnig forðað sér í flýti á dýpið verði hann var við hættu. Margt mætti rita um hvar fisk er að finna. Hér er þó ekki ætlunin að ræða það til hlítar heldur ræða stuttlega hvernig við nálgumst fiskinn, bæði fisk sem við höfum séð og/eða fisk sem við teljum að sé til staðar. Um hvort tveggja gildir það sama. Engar snöggar hreyfingar.

Hegri er ekki algengur fugl á Íslandi. Samt er það árvisst að gráhegri, ungfugl, hefur vetursetu í Garðabænum, enda er gata nefnd eftir honum á Arnarnesi, Hegranes. Hegrann má sjá t.d. í fjörunni í Arnarnesvogi og einnig á ís við Vífilsstaðavatn veiðandi silung við vakir á ísnum yfir veturinn þótt leyfi til veiða í vatninu  taki ekki gildi fyrr en 1. apríl ár hvert. Hegrinn er ekki þekktur fyrir asa í hreyfingum. Í skrúðgörðum erlendis má sem dæmi sjá hegra standa svo hreyfingarlausa að menn þurfa að nálgast fuglinn til þess að staðreyna hvort hann sé málmstytta eða lifandi fyrirbæri. Úti í villtri náttúrunni stendur hann líka „grafkyrr við vatnsbakka og bíður eftir bráð, annaðhvort með hálsinn teygðan fram eða kýttan“ (4, bls. 52). En hegrinn er snöggur þegar bráðin er komin í dauðafæri.

Þegar við nálgumst bráðina mættum við fara að dæmi hegrans. Engar snöggar hreyfingar nema í dauðafæri. Þetta er mikilvægast. Vissulegar hjálpar að klæðast þannig litum fötum að þau falli að umhverfinu. Grænt og brúnt eru góðir litir við veiðar hérlendis og ljósir litir í Karíbahafinu. Mestu máli skiptir þó að fara sér hægt. Helst ættu menn að sleppa því að vaða, en sé það nauðsynlegt, verða menn að vaða varlega. Glampi frá stöng, sem haldið er hátt, eða veiðihjóli, sem sól skín á, endurtekin falsköst eða vaðið óvarlega er miklu líklegra til að fæla fisk en það að veiðimaður sjáist. Ýmsir ráðleggja að menn læðist að bráðinni. Vissulega er engin ástæða til þess að láta sjá sig að óþörfu. Fiskurinn sér þannig upp úr vatninu að hann kemur auðveldlega auga á mann sem skríður á hnjánum. Fiskurinn fælist hins vegar skugga, sem hreyfist, þegar hann fellur af veiðimanni á vatnið. Þegar skugginn hreyfist flýr fiskurinn. Það er ekki skugginn sem fælir fiskinn heldur hreyfing skuggans. Hreyfingin uppljóstrar um viðveru veiðimannsins. Gæta þarf sérstakrar varúðar með sólina í bakið. Þá fellur skugginn af veiðimanni á vatnið og kemur upp um viðveru hans við hreyfingu.

Heimild: Understanding Trout Behavior, bls. 85, 86 og 103, sjá lið 1 í heimildarskrá.


Myndirnar þrjár hér að ofan eru úr bókinni Understanding Trout Behavior. Þær sýna hvernig fiskur sér upp úr vatni. Myndirnar teiknaði Rod Walinchus. Bókin er góð lesning fyrir þá sem vilja fræðast meira um efnið. Sjóndeildarhringurinn er því stærri sem fiskurinn liggur dýpra eins og myndin efst til vinstri sýnir (1, bls. 86). Sjónhornið er 97º og útsýnisglugginn verður þeim mun smærri eftir því sem fiskur er nær yfirborði. Fiskurinn sér hins vegar ekki það sem er undir 10º miðað við lóðréttan flöt og það sem er ofar virðist í halla 48,5º miðað við fuglinn sem flýgur beint fyrir ofan eins og sést á myndinni efst til hægri (1, bls. 85). Fiskurinn hefur þannig töluvert brenglaða mynd af umhverfinu ofan vatnsborðsins. Hann sér t.d. fyrst vængbrodda flugunnar sem berst að honum, og smátt og smátt meira, uns hann sér fluguna alla þegar hún hefur flotið inn í gluggann eins og þriðja myndin neðst fyrir miðju sýnir (1, bls. 103).

Þá vitum við hvernig fiskur sér veiðimann upp úr vatninu. Ljósbrotið veldur því einnig að við sjáum fisk ekki rétt í vatni. Fiskur virðist liggja utar og ofar í vatninu en raunin er. Ef unnt er að skoða veiðistað úr hæð án þess að trufla fiskinn eru það bestu aðstæður. Þó getur endurkast eða glampi á vatni valdið því að við eigum örðugt með að sjá fisk, jafnvel á grunnu vatni. Hér koma gleraugu að góðu gagni sem eru með síu sem veldur skautun á ljósi sem fer í gegn um glerið (polarized lenses). Catch gleraugun sem ÁRVÍK selur eru með skiptanlegum linsum, mismunandi skyggðum. Þau henta þannig við breytileg birtuskilyrði og auðvelda veiðimanni að sjá til botns. Þau eru einnig nauðsynleg vörn fyrir augun þegar flugu er kastað. Enginn ætti að stunda fluguveiðar án þess að vera með gleraugu.

Fiskurinn heyrir okkur ekki tala saman við veiðar. Hann heyrir ekki ofan í vatnið en hann finnur titring í vatni ef við vöðum óvarlega. Það er því til lítils að sussa á börn sem hoppa á vatnsbakkanum en leyfa þeim að halda áfram í snú-snú. Eftir fiskinum endilöngum liggur rák sem nemur vel titring. Á sumum fiskum er rákin svört og afar greinileg eins og á ýsu (4, bls 181). Á laxfiskum er hún einnig til staðar (4, bls. 116-123), ekki eins áberandi en látum það ekki blekkja okkur.  Hún virkar jafnvel. Fiskurinn heyrir hins vegar vel ofan í vatninu. Hann heyrir okkur renna til í grjóti og negldir vöðluskór geta verið skýrar viðvörunarbjöllur þótt þeir séu öryggisatriði við vissar aðstæður. Staðreyndin er sú að hljóð berst mun hraðar í vatni en ofan þess. Hraðinn er rúmlega fjórfalt meiri og eykst með hækkandi hita. Við 8º C er hraði hljóðsins í vatni 1435 m/sek en einungis 344 m/sek í lofti þótt hitinn sé orðinn 20º C (7, bls. 20). Fiskurinn nemur auðveldlega hreyfingu vatnsins ef við vöðum óvarlega.

Fiskar hafa einnig mjög næmt lyktarskyn. Ratvísi laxins er að hluta til skýrð með þessu næma lyktarskyni. Í silungsveiðinni skiptir lyktarskynið töluverðu máli, sérstaklega í vatnaveiðinni, þar sem silungurinn hefur nægan tíma til að skoða agnið. Margir vatnaveiðimenn gæta af þessum sökum þess vandlega að flugan sé laus við lykt frá þeim sjálfum og gæta þess að vera hreinir um hendur þegar þeir hnýta fluguna á. Loon framleiðir sápu í handhægum umbúðum sem veiðimenn mættu hafa í vestinu. Hún er umhverfisvæn og góð til þess að skola hendur eftir löndun á fiski. Sumir nudda jarðvegi á veiðistað á hendur sínar og skola þær í veiðivatninu til þess að tryggja að þeir samlagist náttúrunni. Þetta kann þó að vera til lítils ef sá sem hnýtti fluguna keðjureykti við vinnu sína þannig að flugan angar af tóbakslykt. Sumir silungar kunna þó að vera hneigðir til tóbaks. A.m.k. hef ég veitt silung í Hlíðarvatni sem hafði gleypt filter af sígarettu.

Fiskurinn sér einnig liti vel og á fyrsta aldursskeiðinu greinir silungur jafnvel útfjólublátt ljós, þótt sá hæfileiki sé orðinn miklu mun minni þegar silungurinn fer að lifa á lirfum og púpum (8, bls 84-88). Litur flugulínunnar gæti þannig skipt máli. Fiskurinn sér hins vegar einungis lit línunnar við viss tækifæri, þ.e. þegar ljósið fellur þannig á línuna í vissri sjónlínu. Það er því flest sem bendir til þess að mikilvægara sé að veiðimaðurinn sjálfur sjái línuna vel og viti hvar flugan liggur. Á enda línunnar er yfirleitt bæði taumur og taumefni þar fyrir framan. Þetta er næst flugunni og nokkrir metrar í flugulínuna. Niðri í vatninu sést taumurinn ekki ef hann er valinn með hliðsjón af lit vatnsins. Fölgrænn litur getur átt vel við í silungsveiði í næringarríku stöðuvatni þegar líður á sumarið en tær taumur á Þingvöllum snemma vors. Aðalreglan er sú að sjáir þú tauminn í vatninu sér fiskurinn hann líka. Í þurrfluguveiðinni gilda önnur lögmál þar sem fiskurinn horfir upp á tauminn fyrir ofan sig. Ef taumurinn flýtur í vatnsborðinu getur fiskurinn séð ljósbrotið sem hann myndar í vatnsskorpunni (1, bls. 131). Þess vegna er mikilvægt að nota taum sem sekkur, brýtur vatnsfilmuna, næst þurrflugunni. Þá sést taumurinn ekki og flugan liggur sem varnarlaus bráð. Þá eru líkur á nánum kynnum við lónbúann.

Heimildir:

(1) Goddard, J. og Clarke, B. (2001). Understanding Trout Behavior. Guilford: The Lyons Press.
(2) Goddard, J. og Clarke, B. (2005). The Trout and the Fly. Guilford: The Lyons Press.
(3) Grubb, T.C. (2003). The Mind of the Trout. Madison: The University of Wisconsin Press.
(4) Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (Án árs – [2006]). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Vaka – Helgfell. [Vatnslitamyndir: Jón Baldur Hlíðberg].
(5) Jóhann Óli Hilmarsson. (1999). Íslenskur fuglavísir. Reykjavík: Iðunn.
(6) Sholseth, T.J. (2003). How Fish Work. Portland: Frank Amato Publications, Inc.
(7) The New Encyclopædia Britannica in 30 Volumes: Macropædia: Volume 17. (1974). Chicago: Encyclopædia Britannica, Inc.
(8) Randall, J. (2014). Trout Sense. Mechanicsburg: Stackpole Books.


 

Árni Árnason                                                                                  © maí 2014 ÁRVÍK

 

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

                                                                                                              Áríðandi.

 

 

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

 

Samanburður á villtum lax og eldislax 

 

 

  

Villtur lax  

 

 

 Helstu útlitseinkenni sem hægt er að hafa til viðmiðunar 

 

Villtur lax

 

Almennt:

 

Villtur lax getur verið breytilegur í útliti og það getur verið sjáanlegur útlitsmunur milli mismunandi stofna. Í náttúrulegu umhverfi villta laxsins geta komið upp aðstæður sem hafa áhrif á útlit fisksins. Slíkt getur gerst á seiðastigi í ferskvatni eða við sjávardvöl. Það er því mikilvægt að alhæfa ekki um afgerandi útlitsmun á eldislaxi og villtum laxi á þann hátt að villtur lax sé alheill og öll frávik hljóti að vera eldislax. 

 

A Trjóna og tálknbörð heilleg og laus við slit.

B Bakuggi heill og án slits

C Sporðsýling V-laga og sporður laus við slit

D Raufaruggi heillegur og laus við slit

E Kviðuggar heillegir og lausir við slit

F Eyruggar heillegir og lausir við slit

 

Villtur lax er straumlínulaga og samsvarar sér vel.

 

 

Eldislax

 

 

Helstu útlitseinkenni sem hægt er að hafa til viðmiðunar 

 

Eldislax

 

Almennt:

 

Laxeldi er stundað í sjókvíum og strandeldisstöðvum hérlendis. Norsk laxahrogn voru flutt til landsins árin 1984 til 1987 og er lax sem notaður er í eldi af norskum uppruna. Eldislaxinn hefur verið kynbættur og valið fyrir eiginleikum sem eru hagstæðir við matvælaframleiðslu eins og hröðum vexti og hækkun kynþroskaaldurs.

 

 

A Trjóna getur verið slitinn og tálknbörð slitin og eydd

B Bakuggi slitinn og lítill.

C Sporðsýling lítið V-laga og sporður slitinn

D Raufaruggi getur verið slitinn

E Kviðuggar geta verið slitnir og misstórir

F Eyruggar geta verið slitnir og misstórir

 

Eldislax getur verið minna straumlínulaga en villtur lax, oft er eldislax holdmeiri. Holdastuðull er hærri.

 

 

Ef líkur eru á að lax sé að eldisuppruna er mikilvægt að framkvæma eftirfarandi:

 

1) Skrá veiðistað og dagsetningu

2) Skrá Lengd og þyngd

3) Skrá kyn

4) Taka hreistursýni

5) Ef veiðiugga vantar er lax örmerktur. Skera þarf trjónu af við augu, setja í plastpoka og merkja.

6) Hafa samband við Embætti Veiðimálastjóra. Einnig er hægt að leita til starfsmanna Veiðimálastofnunar.

 

 

 

Aðferðir til að greina á milli kvíalaxa og náttúrulega laxa

"Nokkrar aðferðir eru notaðar til að greina á milli eldislaxa og náttúrulegra laxa, t.d. með vaxtarmynstri í hreistri (Lund og Hansen 1991). Dæmigerður náttúrulegur lax hefur glögg skil á milli vaxtar í ferskvatni og sjó auk þess sem greinilegur munur er milli vaxtar sumars og vetrar. Fiskur alinn í kví er auðþekktur á því að ógreinileg skil eru á því, þegar fiskur fer úr fersku vatni í sjó, og lítill munur er á sumar- og vetrarvexti í sjó. Hafbeitarfiskurinn er erfiðari þar sem sjávarvöxtur er eins og hjá náttúrulegum laxi. Vaxtarmynstrið í fersku vatni er þó frábrugðið að því leyti að vöxtur hafbeitarseiða er meiri en hjá villtum laxi (Friðjón M. Viðarsson og Sigurður Guðjónsson 1993).

 

Sjá nánar í fróðleik um hreistursýni

 

Kvíalax, þ.e. eldislax sem alinn er í sjókvíum, er hægt að greina frá

náttúrulegum laxi með þvi að skoða lögun ugga, trýnis, kjálka og lengd tálknloka (Lund o.fl. 1989). Þessi aðferð er nákvæm fyrir fisk sem hefur sloppið úr sjókví skömmu áður en hann leitar upp í laxveiðiá, en nákvæmnin er minni þegar fiskur sleppur úr kví á seiðastigi (Fleming o.fl. 1994). Þegar útlit fisksins og hreisturgreining eru notuð samtímis næst meiri öryggi í að flokka kvíalax frá náttúrulegum laxi (Lund o.fl. 1989). Við notkun beggja þessara aðferða er hlutfall kvíalaxa að öllu jöfnu vanáætlað (Fiske o.fl. 2000). Því til staðfestingar er að þegar metnar eru villur hafbeitarlaxa í laxveiðiám á Íslandi fæst hlutfallslega hærri prósenta þegar stuðst var við merkta laxa en við hreistursgreiningu (Vigfús Jóhannsson o.fl.

1998).

 

Eldislax er bólusettur á seiðastigi en við það myndast samvöxtur á líffærum í kviðarholi. Með því að opna fiskinn og skoða innyflin er hægt að flokka náttúrulegan lax frá kvíalaxi af mikilli nákvæmni (Lund o.fl. 1997). Kvíalaxar og náttúrulegir laxar lifa á mismunandi fæðu, sem m.a. er frábrugðin í innihaldi litarefna. Kvíalax er fóðraður með fóðri sem inniheldur tilbúin litarefni, sem hægt er að aðgreina frá náttúrulegu litarefni. Þegar kvíalax sem sleppur étur fæðudýr með náttúrulegum litarefnum, á sér stað útþynning á tilbúnu litarefni í holdi hans. Nákvæmni þessarar aðferðar minnkar eftir því sem lengri tími líður frá því fiskurinn sleppur úr kví þar til hann skilar sér í laxveiðiá (Webb og Youngson 1992; Lura og Økland 1994).

 

Til að greina á milli náttúrulega laxastofna og kvíalaxa er hægt að mæla erfðafræðilegan mun á milli stofnanna. Sú aðferð sem notuð hefur verið um nokkurn tíma byggist á því að athuga byggingu próteina með rafdrætti. Sé munur á byggingu einhvers próteins má rekja hann til munar á genum. Hin aðferðin byggist á að mæla

erfðabreytileika í DNA (Cross og Challanain 1991; Youngson o.fl. 1991; Knox og Verspoor 1991). Við notkun þessara aðferða er notaður hópur laxa til að greina hlutfall kvíalaxa. Þær eru einnig bæði seinlegar og dýrar og því almennt ekki notaðar við að greina kvíalax frá náttúrulegum laxi *".

 

 

Heimildir:

 

Björn Theodórsson

 

* Hugsanleg áhrif eldislaxa á náttúrulega laxastofna. Valdimar Ingi Gunnarsson 2002. Unnið fyrir Embætti Veiðimálastjóra.

 

Ljósmynd:  Sumarliði Óskarsson

 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

 

 

                                                          Vífilsstaðavatn

 

Vífilsstaðavatn vill oft gleymast þegar talað er um veiðivötn á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess. Í Vífilstaðavatni er bæði bleikja og urriði. Veiðivonin þar er ekki síðri en í öðrum vötnum á svæðinu.

Vífilsstaðavatn opnar faðminn á móti veiðimönnum heilum mánuði fyrr en Elliðavatn. Veiðin hefst þar 1. apríl ár hvert og veiðitímabilið stendur fram til 15. september. Veiðileyfi eru seld á hóflegu verði í golfskála G.K.G. við Vífilsstaðaveg. Handhafar Veiðikortsins geta veitt að vild í vatninu.

Meðfylgjandi loftmynd af Vífilsstaðavatni er fengin hjá Loftmyndum ehf. Á myndinni er merkt við helstu veiðistaðina að mati Engilberts. Það segir hins vegar ekki að ekki megi reyna undir Hlíðinni.

 

Að lesa bílinn
Ég byrja á því að "lesa bílinn" þegar ég hef veiðar í Vífilsstaðavatni. Það er gott fyrir veiðimenn að vera vel læsir á vatn. En það er ekki síðri kostur að vera vel læs á nátturuna. Ég byrja því að lesa bílinn og skoða flugurnar sem setjast á framrúðuna á meðan ég er að taka mig til. Og það bregst yfirleitt ekki að silungurinn er einmitt að taka þessar sömu flugur.

Sem ungur maður var ég afskaplega kappsfullur veiðimaður og þá óð ég um allt Vífilsstaðavatn og taldi að ekki væri hægt að setja í fisk öðru vísi en að vera búinn að vaða upp að höndum. Eftir að ég róaðist lærði ég meira á náttúruna og þá jókst veiðin hjá mér umtalsvert. Það fyrsta sem ég lærði varðandi Vífilsstaðavatn er sú staðreynd að vatnið hlýnar fyrst þar sem það er grynnst. Þar tekur lífið fyrst við sér á vorin og þar er mesta veiðivonin. Þess vegna veiði ég mest við suðurenda vatnsins þar sem mest er um grynningar. Vesturbakkinn hefur einnig gefið mér ágæta veiði. Stærsta bleikjan sem ég hef veitt í vatninu var rúmlega 40 sentimetra löng. Ég fékk hana út af bryggjunni á vesturbakkanum.

 

Varúð, vaðfuglar
Ég hef ekki veitt í vöðlum í Vífilsstaðavatni í mörg ár. Mér nægir að vera í vaðstígvélum og kasta stutt út, eða meðfram landinu, enda hefur það mjög oft komið fyrir að ég veiði fisk langt fyrir aftan aðra veiðimenn. Ég neita því ekki að vöðlurnar eru oftast nær með en yfirleitt læt ég nægja að geyma þær í bílnum.

 

Flugurnar
Í apríl og maí veiði ég mest á margvísleg afbrigði mýpúpunnar, enda eru stórir flákar í vatninu þaktir mýpúpuhylkjum, þannig að veiðimaðurinn þarf ekki að velkjast í neinum vafa um hvað fiskurinn er að éta. Mýið kviknar fljótt á grynningunum og þótt lofthitinn sé kannski ekki mikill má oft sjá flugu. Ef það er ísbrák á vatninu hefur mér oft reynst vel að kasta uppá ísinn og oft tekur hann þegar ég dreg fluguna fram af ísnum. Ástæðan fyrir því er sú að oft frjósa mýpúpurnar þegar vatnið leggur og bleikjan tekur þær síðan þegar þær losna úr klóm íssins þegar hann bráðnar.

Í byrjun júní færi ég mig oft yfir í Peacock, Pheasant Tail, Héraeyra og Caddis flugur (vorflugur). Ég mæli með því að menn séu duglegir við að skreyta Peacock-púpuna og reyna til dæmis gulan lit í stað þess rauða. Mér hefur sýnst guli liturinn vera gjöfulli, ef eitthvað er. Vífilsstaðavatn er kjörið fyrir þá sem vilja æfa sig með þurrflugu og þá er farsælast að byrja þegar örlítil gára er á vatninu.

 

Púpurnar
Hér eru nokkrar af púpunum sem hafa gefið mér góða veiði í Vífilsstaðavatni. Myndirnar eru teknar af Þorsteini G. Gunnarssyni, ritstjóra Flugufrétta. Þær eru birtar með góðfúslegu leyfi hans, en ég hnýtti púpurnar..

Fáar flugur hafa gefið mér jafn góðan afla eins og Toppflugupúpan, enda þekja hylkin utan af þessari púpu oft stóra fláka vatnsins.

 

Hér er Héraeyra sem margir þekkja. Þessi fluga hefur reynst vel í Vífilsstaðavatni, sem og öðrum stöðuvötnum, einnig í straumvötnum.

Hér er skemmtileg útgáfa af Peacock. Hausinn er gulur og búkurinn er allur "palmeraður" eða vafinn með svartbekkjóttri fjöður sem síðan er snöggklippt nema rétt fremst.

Rautt afbrigði Peacock púpunnar.

Snotur epoxy-púpa.

Þessi litla gula vorflugupúpa leynir á sér. Hún hefur oft gefið mér góða veiði í Vífilsstaðavatni um miðbik sumars.

 

Í skjóli við þúfurnar
Ég legg áherslu á að veiðimenn við vatnið haldi sig á bakkanum og veiði með augun og eyrun opin og reyni að átta sig á lífríkinu og eðli þess. Vatnið er grunnt og í því er töluverður gróður. Margir veiðimenn bölva gróðrinum og segja að ekki sé hægt að veiða í vatninu meiripart ársins vegna gróðurs. Þetta er náttúrulega argasta vitleysa, því að fiskurinn leitar í gróðurinn, bæði vegna þess að þar er mest af ætinu og þar hefur fiskurinn skjól. Ég mæli þess vegna eindregið með því að menn kasti meðfram gróðrinum. Ég lofa að það ber árangur.

Við suðurenda vatnsins eru nokkrar gróðurtorfur í vatninu þar sem ég geng að fiski vísum. Hann liggur hlémegin við torfurnar og tínir upp í sig pöddur sem losna úr gróðrinum. Ég hef stundað það að kasta á þessar torfur með góður árangri. Yfirleitt tek ég einn fisk, færi mig þá að næstu torfu þar sem ég endurtek leikinn og þannig koll af kolli þar til ég fer aftur að þeirri fyrstu. Það bregst ekki að önnur bleikja er komin í plássið.

Ofangreind frásögn er að mestu leyti byggð á viðtali við mig sem Þorsteinn G. Gunnarsson tók. Viðtalið birtist í Flugufréttum hinn 14. apríl 2006 (319. tölublað).

Í desember 2008 
Engilbert Jensen

 

 

                                                                                                                                                   © ÁRVÍK hf

 

Flettingar í dag: 21
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 138
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 229509
Samtals gestir: 32669
Tölur uppfærðar: 15.10.2024 01:07:47